Monday, December 7, 2009

Meira af miðherjum Portland




















Við erum enn að jafna okkur á tíðindunum af meiðslum Greg Oden. Fórum allt í einu að hugsa aftur um skugga Sam Bowie sem hangir yfir Oden, en svo rann það upp fyrir okkur að Oden á óralangt í að vera þess verðugur að rætt sé um hann í sömu andrá og Sam Bowie!

Ekki bara frá hæfileikalegu sjónarmiði - Bowie var t.d. fínn sóknarmaður - heldur líka þegar við berum saman sorglega sjúkralista þeirra. Bowie náði eftir allt saman að spila næstum jafn marga leiki (76) og fleiri mínútur (2216) á sínu fyrsta ári í deildinni en Oden hefur gert á fyrstu þremur árum sínum með Portland ef við gefum okkur að hann sé úr leik í vetur eins og sagt er. Bowie spilaði svo reyndar ekki nema 139 leiki á fyrstu fimm árum sínum í deildinni, svo það er enn von fyrir Oden.

Bowie-ævintýrið var ekki eintómar hörmungar fyrir Portland, því félagið náði um síðir að losa sig við hann til New Jersey og fékk í skiptum kraftframherjann Buck Williams. Portland fór alla leið í úrslitin fyrsta árið sem Williams spilaði með liðinu og aftur tveimur árum síðar. Hann skilaði góðu verki með Blazers þar sem hann spilaði 80 leiki eða meira öll sjö árin sín hjá félaginu ef undan er skilið það síðasta.

Í dag er ekki auðvelt að ímynda sér að mál Greg Oden eigi eftir að enda vel. Og við erum ekki ein um að vera dálítið svartsýn fyrir hans hönd.